LEIÐBEININGAR
Í Sandalasettinu finnur þú nánast allt sem þarf í eitt par af sandölum. Tvö snið sem passa á kvennmansstærðir nr. 36-42, millisóla- og bindsólaleður, hælalög og m.fl. Settið hefur að geyma öll helstu hráefni sem þú þarft til þess að búa til einstakt handgert par af sandölum úr eðal ítölsku náttúrusútuðu leðri. Annað átt þú pottþétt til heima hjá þér, út í bílskúr eða í geymslunni.
ÞAÐ SEM FYLGIR:
MYNDIR AF FERLINU (eftir textann) sem styðja við textann og öfugt. Á myndunum sýnir Afturganga hin ýmsu trix við gerð á par af sandölum. T.d. hvernig á að brjóta glerbrot og beita því, hvað er dúkknál og hvernig hún er notuð og hvað þú getur notað í staðinn, ef þú átt hana ekki til og hvernig þú þynnir leður með hníf og fl.
Vinsamlegast lestu vel yfir leiðbeiningarnar áður en þú hefst handa og hafðu þær til hliðsjónar á meðan á sandalasmíðinni stendur.
MYNDIR AF VERKFÆRUM sem fylgja settinu og þeim sem fylgja ekki með settinu og það sem er gott að eiga en er ekki nauðsynlegt. En það er gott fyrir þig að eiga ef þú vilt leggja fyrir þig sandalasmíði í framtíðinni.
TVÖ SNIÐ AF YFIRLEÐRI og skalað snið fyrir ytri-, milli- og bindsólana nóg í nr. 36-42. Það er nóg af yfirleðri til þess að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og breyta sniðinu sem verður fyrir valinu að vild, svo lengi sem þú treystir þér til þess.
Ég mæli alltaf með því að klippa sniðið út í þunnum A-4 pappír og máta á eigin fæti, laga til og aðlaga að sinni anatomíu. Í settinu er að finna tvær mismunandi týpur af sniðum af yfirleðri sem einnig má leika sér að og styðjast við til að fá persónulegri útkomu. Þú ert hönnuðurinn!
Þessar týpur af sandölum ættu ekki að taka meira en 8-10 klst. að fullgera. En auðvitað fer allt eftir tíma og handlagni hvers og eins og hversu “pikkí” maður er á fíniseringum.
VERKFÆRI OG EFNI sum þessara efna er erfitt að finna og ekki hægt að kaupa í smásölu eða jafnvel langt að sækja en það hefur verið draumur minn að sameina þau í einu setti fyrir þig og þau eru eftirfarandi:
Sterkt skósmíðalím (passa að börn ná ekki til).
Pensill (einungis fyrir sterka límið).
Þynnir til að þrífa pensil. (passa að börn ná ekki til)
Naglar 5 stk. til að festa límdu hælblokkina við ytri sólann.
Korkkubbur fyrir sandpappírinn og fíniseringu á hælum.
Sandpappír grófur/fínn fyrir lokasprettinn og fíniseringar.
Glerkrús og pensill einungis fyrir vatn.
Glerbrot brotið og tilbúið til notkunar. Notað eftir að búið er að grófpússa hæl og sólahliðar.
Dúkahnífur mér finnst betra að vinna með minni gerðina en það getur verið gott að grípa í þá stærri þegar þú ferð að skera ytri sólann til. Ég hef notað minni týpuna í það og það er vel gerlegt. Tvær aðferðir eru sýndar í myndabók um það hvernig best er að beita honum. Mjög gott að muna að brjóta reglulega af blaðinu. Beittur hnífur er hættuminni en bitlaus hnífur!
Ytrisólarleður sem er næst jörðinni og stífast af öllum þremur sólunum sem fylgja settinu. Nóg fyrir kvk str. nr. 36-42
Millisóla-leður þykkt og það sem er á milli bindsóla og ytrisólaleðurs. Nóg fyrir kvk str. nr. 36-42. Gerir sandalana gerðarlegri og mýkri að ganga í.
Bindsólaleður og yfirleður milliþykkt leður u.þ.b. 32x60 cm. Hér skerðu raufarnar í og ólarnar af yfirleðrinu fara í gegn.
Hælar 3x3 u.þ.b 15 mm bútar af hælaleðri sem stafla þarf saman og líma.
Anatómíumynd af sandölum í settinu.
Anatómíumynd af fæti.
EITTHVAÐ SEM ÞÚ VÆNTANLEGA ÁTT EÐA GETUR REDDAÐ ÞÉR ÁN MIKILLAR FYRIRHAFNAR.
Túss til að yfirfæra snið á leður.
A4 pappír til að breyta sniðum. Þykkari pappír til að búa til varanleg snið. Mæli með versluninni A-4.
Reglustika ég á glæra reglustiku með 1 cm ferningum áprentuðum sem gerir hana mjög fjölnota. Önnur hliðin er þykk og gott að nota þegar þú ferð að skera löngu beinu strikin.
Skæri
Málningarteip notað til að festa yfirleðrið/ólarnar undir bindsólann til að aðlaga sem best að fætinum og finna réttu stöðuna áður en límt er með sterka líminu. Mikilvægt er að taka tíma í þennan hluta verksins!
Hamar
Síll hér er alveg hægt að notast við gamalt skrúfjárn, prjón eða annað oddhvasst verkfæri. Ég nota síl til að merkja fyrir staðsetningu ólanna og skrapa undirlagið áður en límt er.
Gatari til að gata sitthvora endana á rákunum fyrir ólarnar. Hér er notað gat nr. 2
Skurðmotta þessar grænu! Þær fást í A4.
Dúkknál til að reka nagla rétt undir yfirborð.
SKALAÐ SÓLASNIÐ, YTRI SÓLI OG MÓTUN HANS
Finndu eina stærð fyrir ofan þína (leður skreppur aðeins samna þegar það er bleytt) af skalaða sólasniðinu og taktu í gegn á t.d smjörpappír, klipptu út og yfirfærðu á þykkari pappír. Það er eigulegra og auðveldara að vinna með. Leggðu það á ytrisólaleðrið og tússaðu hringinn í kringum. Mundu að snúa, til að fá bæði hægri og vinstri, því þú ætlar að gera par en ekki tvo sandala á sama fót! Það vill gerast að maður gleymi sér þegar maður er sokkinn ofan í þessi skemmtilegheit ;-)
Settu nú skurðmottuna þína undir og skerðu rétt utan við tússlínuna, sem þú pússar af í lok verkefnisins. Hér er vert að byrja á því að skera grunnt og fara aftur og aftur ofan í sama skurðinn bút fyrir bút. Þó svo að formið sé rúnnað á sólanum þá er betra að byrja á því að skera beina og stutta skurði og gott er að halda á hnífnum eins og penna og hvíla olnbogann á vinnuborðinu.
Bleyttu nú sólann undir vatnsbunu og sveigðu, beygðu og snúðu aðeins uppá hann. Þetta er gott upp á að koma í veg fyrir óþarfa brakhljóð þegar þú ferð að ganga í sandölunum þínum. Nú formar þú tánna með því að beygja framhlutann upp á við og setur sveigju á ilina. Mér finnst gott að nota bríkina á baðvaskinum. Leggðu hlutann á sólanum þar sem ilin á að vera á bríkina á vaskinum og haltu sitthvoru megin við og þrýstu létt í gangstæða átt og í leiðinni juðarðu sólanum fram og aftur. Þetta gefur sandalönum fallega ásýnd og þjónar einnig þeim tilgangi að varna óþarfa steinum inngöngu eða því að reka tánna í. Nú leggurðu sandalana til hliðar og leyfir þeim að þorna.
Næst myndi ég stafla hælunum og skera út bind- og millisólana, til að nýta tímann á meðan að límið bíður í 20 mín. á hælunum allt eftir því hvað þú ákveður að hafa þá háa. Ef þú ætlar að nota öll þrjú hæla-lögin tekur þetta ferli um 60 mín. eða 3x20 mín.
HÆLARNIR. ALGJÖRT “MÖST”!
Í settinu eru 3x3 hælalög fyrir sitthvorn sandalann. Þú ákveður hvort þú viljir þá í lægri eða hærri kantinum. Byrjaðu á því að leggja þá alla á borð og raspa húðhliðina sem glansar með síl, prjóni eða gömlu skrúfjárni. Ef þú þarft eða vilt breyta rúnnuðu kverkinni sem snýr að tánni gerðu það þá núna (þú getur svo fíniserað hana þegar verkið er fullgert með sandpappír, ef þér finnst það þurfa) því hún er skapalónið þitt. Þú getur þá lagt 2-3 saman og haldið þeim stöðugum á milli fingrana og sandpússað eða notað glerbrotið. Leggðu þá svo aftur á borðið með hrufluðu hliðinni upp (gott að hafa dagblað undir) og berðu lím á fyrstu fjögur hælalögin og stilltu klukkuna á 20 mín. og því næst taktu upp snið af milli- og bindsólunum til að nýta tímann. Þegar klukkan hringir leggurðu saman hælana frá rúnnuðu hverkinni og hamrar vel ofan á og gengur úr skugga um að þeir séu límdir saman alveg út í kant, allan hringinn. Ef þú hefur ákveðið að nota öll þrjú lögin þá endurtekur þú leikinn á tveimur síðustu lögunum og lögunum tveimur sem nú þegar eru límd saman. Þegar öll hæla-lögin eru límd saman rasparðu ofan á efsta lagið og undir sólann þar sem þú hefur þegar merkt hvar kverkin á að vera og límir alla fjóra fletina. Mundu að hamra vel ofan á með hamrinum (hér getur komið sér vel að eiga skósteðja en ekki nauðsynlegt).
Allt í allt ætti þetta að taka ca. 60 mín.
Nú merkir þú með blýanti ca.1 cm inn að sólanum skeifulaga form og gerir eitt X efst fyrir miðju og svo með jöfnu millibili fjóra í viðbót niður með skeifunni sitthvoru megin. Hér fara naglarnir í miðjan krossinn. Negldu naglana u.þ.b. 2-3 cm ofan í ef þú ert með þrjú hælalög en minna ef þú ert bara með tvö lög. Þú getur lagt naglann upp að hælnum og sirkað út hversu langt hann á að fara. Þú vilt ekki að hann fari út í gegnum hælinn en samt að hann fari í gegnum öll lögin. Því næst tekurðu naglbítinn og klippir af alveg við sólaleðrið og tekur svo dúkknálina (eða líka hægt að hamra með hamri beint) og rekur þá rétt svo niður undir yfirborðið á sólanum. Hér ofan á kemur svo millisólinn.
MILLI- OG BINDSÓLI
Notaðu sama sniðið á milli- og bindsólann og þú notaðir á ytrisólann. MUNA AÐ SNÚA! Góð saga er aldrei of oft kveðin.
BINDSÓLINN er næst fætinum og hér fara ólarnar af yfirleðrinu í gegn.
MILLISÓLINN er lagið á milli bind- og ytrisóla. Hér snýr húðhliðin upp og þess vegna ber að bleyta hana örlítið með pensli og raspa hana af með glerbrotinu til að límið grípi betur. Langar og jafnar strokur svo myndist litlar upprúllaðar leður spænir. Það er líka hægt að nota afgangs búta hér frá yfirleðrinu til að jafna út yfirborð undir bindsólanum, sýnt í myndabók.
YFIRLEÐRIÐ OG KLÆÐSKERAMÁTUN Á PAPPÍR OG SVO TAKA SNIÐIÐ Í GEGN Á YFIRLEÐRINU
Nú er komið að því að pæla í því hvaða týpu af yfirleðri þú ætlar að velja, breyta lítilega eða hvort þú ætlir að hanna eitthvað alveg frá grunni. Klipptu það til í hvítum A-4 pappír og mátaðu á eigin fæti til að aðlaga það sem best að eigin anatomíu. Það er líka góð æfing til þess að fá tilfinningu fyrir ferlinu, staðsetningu á yfirleðrinu á fætinum sem og bindsólanum og skoðaðu hvort þú þarft eða vilt breyta einhverju. Ég vil t.a.m. alltaf að litla táin yfirdekkist, finnst það bæði fallegra og þægilegra.
A-4 pappír er mjög góður til að gera módel-skissur af sandölunum í raunstærð sem eru á draumalistanum þínum! Mér finnst gott að láta annan fótinn upp á koll og leggjast yfir lærlegginn og máta til, skoða, breyta og laga. Þegar þú ert ánægð/ur/t með útkomuna þá er næsta skref að teikna sniðið á þykkari pappír (alltaf þægilegra ef maður vill eiga það en einnig svo það lyftist ekki upp á meðan þú yfirfærir það yfir á leðrið). Ég myndi mæla með því frá byrjun, þar sem þú ert e.t.v. að gera þína fyrstu sandala, að snúa leðrinu á rönguna til að varna því að tússinn fari ekki á betri hliðina, húðhliðina. Klippa síðan eða skera akkúrat fyrir innan tússlínuna svo sniðið verði ekki of stórt. (Ég sker alltaf, eitthvað sem ég hef vanið mig á). Mundu ávallt að nota reglustiku þar sem koma fyrir löng bein strik.
Þessi hluti af verkinu tekur væntanlega lengstan tíma, það er eðlilegt þannig að flýttu þér hægt og njóttu!
SETJA SAMAN YTRISÓLA OG HÆL
Núna myndi ég kíkja á ytrisólann og athuga hvort hann er ekki orðinn þurr og með þær sveigjur og beygjur svo útkoman líkist pari sem þú ert ánægð/ur/t með. Mældu hann og deildu í með fjórum. ¼ hlutinn afmarkar hvar hællinn er staðsettur sem og lengdina á honum. Ég á það til að bæta 0.5 mm í miðju hælsins í miðjum boganum því mér finnst það fallegra. Merktu með penna hvar kverkin á hælnum á að vera á bakhlið sólans og notaðu til þess hælana þína og raspaðu kruss og þvers (með síl, prjón eða gömlu skrúfjárni) akkúrat þar sem hællinn á að vera. Gerðu slíkt hið sama á tilbúnu hælunum þínum, þar sem hann á að límast undir sólann. Berðu þunnt lag af lími á báða fletina en nóg svo það þekji alveg. Mikilvægt að muna er að skósmíðalím er tveggja þátta og þarf að vera snertiþurrt áður en það er fest við flötinn sem það á að fara á! Þetta tekur u.þ.b. 20 mín. Ekkert dútl hér, límið fílar það ekki og hleypur bara í eitthvert þykkildi. Langar, snarpar og jafnar strokur!
Ef hællinn skagar langt frá sólanum þá er gott að skera hann til áður en hann er festur á sólann. Eftir að þú ert búin/n/ð að festa hælinn á þá merkirðu 5 krossa ofan á sólann og rekur þar í naglana. Naglarnir sem ég er með eru 20 mm og aðeins of langir svo ég klípi af þeim með naglabít og lem þá niður rétt undir yfirborðið með dúkknál.
RAÐA SAMAN YTRISÓLANUM, MILLISÓLANUM OG BINDSÓLANUM TIL AÐ STAÐSETJA YFIRLEÐRIÐ OG MARKERA FYRIR ÓLARNAR. LOKSINS!
Náðu í koll og leggðu ytrisóla (sem nú er kominn með hæl) annan fótinn á hann. Síðan milli- og síðast bindsólann, með yfirleðrið við höndina tilltu fætinu á bindsólann. Mátaðu yfirleðrið, skoðaðu frá öllum hliðum og sveigðu það og beygðu undir og á milli binds- og millisóla. Ekki aðhafast neitt fyrr en þú ert fullkomlega sátt/ur með staðsetninguna. Hafðu sílinn við höndina eða annað oddhvasst til að merkja lauflétt við endan á ólarnar og ofan á bindsólann þar sem þú ætlar að gata fyrir raufarnar. (Ég myndi alltaf passa það að hylja litlu tá til að koma í veg fyrir óþarfa særindi og persónulegra finnst mér það fallegra).
Síðan ertu með gatara stilltann á gat nr. 1, sem á við hér, en það fer samt alltaf eftir þykkt yfirleðursins. Gataðu þar sem merkingarnar eru og strikaðu á milli með blýanti og skerðu svo á milli. Passaðu að skera ekki alveg yfir, alltaf betra að skera FRÁ gati en alveg AÐ gati fyrir sandalaólunum. Þetta er vandasamt verk og ágætt að æfa sig á leðurbút áður, því þú vilt ekki að raufin verði of stór. En hafðu í huga að ólarnar á yfirleðrinu fara hér í gegn og hjálpa því til við að hylja smá misfellur sem kunna að hafa myndast. Þegar hér er komið við sögu geturðu lagt hægri ofan á vinstri og tekið í gegn. Skoðaðu stöðuna og athugaðu hvort þú viljir eða þurfir að færa aðeins til merkingarnar, mundu þú ert að gera PAR!
LOKAMÁTUN
Nú er komið að því að þræða ólarnar í gegnum raufarnar og smokra sig í sandalann, muna að hafa hin tvö sólalögin undir og uppá koll. Hér er mjög mikilvægt að yfirleðrið leggist vel að fætinum auk þess er mikilvægt að passa að ekkert gap myndist á hliðunum eða annars staðar þar sem það á ekki að vera, en jafnframt að hafa eiginleika leðursins í huga. Sums staðar verður að myndast gap vegna hreyfingu fótarins og stíflleika leðursins. Gefðu þér tíma, þú átt það skilið! Kannski getur hjálpað að vera með spegil og færa hann frá annari hliðinni yfir á hina til að sjá prófílinn. Ég hef ekki prófað það en það sakar ekki. Það getur líka hjálpað til að líma aftur yfirleðrið undir bindsólann með málningarteipinu „fara úr sandalanum“ halda ólunum þétt að bindsólanum og endurtaka ferlið og máta aftur. Mér finnst persónulegra nóg að smokra mér úr og reyna að raska engu og máta aftur en þá þurfa rákirnar að vera nánast fullkomnar, s.s. grípa vel í ólarnar. Æfinginn skapar meistarann! Þú getur þetta! Stundum þarf nokkrar tilraunir hér, annars vegar til að mýkja leðrið og hins vegar til að athuga hvort það hafi nokkuð færst úr stað. Þegar þú ert orðin/n/ð ánægð/ur/t, þá snýrðu við bindsólanum og losar um teipið afar varlega þannig að ólarnar haggist ekki, merkir innanverðar ólarnar með tússi þar sem þær nema við raufina, undir bindsólanum í kverkinni. Ég merki líka með tússi hvar endarnir liggja undir bindsólanum.
FRÁGANGUR Á ÓLUM UNDIR BINDSÓLA
Nú er komið að stóru stundinni, þ.e. að líma aftur ólararnar undir bindsólann. Líma og bíða í 20 mín.
Þegar þú límir er mjög mikilvægt að fylgja tússlínunum því það er nánast ógerlegt að losa partana í sundur eftir á, nema með því að hita þá með hárþurrku og handafli. Þegar þú ert búin að leggja endana á ólunum aftur og hamra á þá, þá er komið að því að þynna þá. Það gerirðu með hnífnum þínum. Reyndu að jafna þá aflíðandi að miðju en ekki fara nær en ca 1-1/2 cm að raufunum. Síðan rasparðu svo allt sem glansar (húðhliðina) eins og þann bút sem þú skildir eftir af ólunum.
TIL HAMINGJU MEÐ ÞETTA VERK!
KOMA ÖLLU HEIM OG SAMAN. LÍMA SAMAN BINSÓLANN MEÐ YFIRLEÐRINU VIÐ MILLISÓLANN OG MILLISÓLANN VIÐ YTRISÓLANN.
Taktu síl, prjón, gamalt skrúfjárn eða annað oddhvasst verkfæri til að gera rákir með á millisólann (undir bindsólanum er yfirleitt hrjúft yfirborð svo það þarf ekki að raspa þar, nema endana á ólunum e.v.t.). Berðu nú þunnt lag af lími en í jöfnum löngum strokum á alla 4 fletina og athugaðu að límið þekji vel alls staðar og vel út í kantana. Stilltu klukkuna á 20 mín. Þegar límið er orðið snertiþurrt sestu þá á kollinn og settu millisólann í kjöltuna og haltu bindsólanum rétt yfir þannig að þú getir miðað út hvar þú ætlar að leggja þá saman. Skoðaðu allan hringinn á báðum formunum. Gefðu þér tíma! Það er gott að æfa sig áður en límt er. Þegar þú ert klár þá byrjaðu að líma frá hæl að tá og sveigja bindsólann þar sem það á við, eins og í miðjunni, við ilina og tánna. Nota bene Mundu að passa að halda eilítið við rákirnar eins og þú sért að beina þeim inná við og ofan á millisólann, þú vilt að bindsólinn sé inn á hliðunum á millisólanum. Þær mega alls ekki skaga út fyrir! Það getur stundum gerst ef maður hefur skorið rákirnar of víðar. Passa hér að réttur bindsóli fari á réttann millisóla! Núna leggurðu sandalann á vinnuborðið þitt og rennir hendinni þéttingsfast ofan á bindsólann og þrýstir á. Ef þú átt skó-steðja skaltu renna sólanum upp á hann og hamra ofan á ytrisólann og hæl og gulltryggja það að fara yfir allan flötinn. Það er líka gott að fara í sandalana og láta eigin þunga vinna á sameiningunni. Á kantana ofan á nota ég sléttubein (hægt að kaupa hjá Tandy Leather) eða notaðan trésmjörhníf. Haltu undir sólann þar sem þú rennir yfir að ofanverðu. Skoðaðu sandalann frá öllum hliðum til að ganga í skugga um að engin göp séu meðfram kantinum. Þú ferð eins að þegar þú svo límir þennan part við ytrisólann.
FRÁGANGUR Á KÖNTUM
Fyrir þá sem ekki eiga beltispússara (margir færustu skósmiðir heims nota aðeins handaflið, glerbrotið og sandpappírinn) þá er ekkert mál að klára kantana með sandpappír. Pússa fyrst með grófum, svo fínni og síðast með enn fínni sandpappír og síðasti sandpappírinn fer alltaf í sömu átt til að leggja niður fíbrana í leðrinu! Búðu til rúllu sem passar á kantinn á sólanum og hafðu hana þétta. Þú getur rúllað fyrst upp gömlum pappír og svo nýjum utan um. Haltu honum á milli þumalputta, vísifingur og löngutöng og renndu honum langsum eftir kantinum. Hér er galdurinn að bleyta svolítið kantinn þegar farið er yfir síðustu umferðina með sandpappír, alltaf í sömu átt. Ef ég geri hlé á vinnunni þá geymi ég rúlluna í þvottaklemmu svo ég þurfi ekki að rúlla henni aftur upp.
Á hæl er gott að vefja sandpappír utan um kubbinn sem fylgir settinu og nota sömu aðferð og lýst var hér á undan. Því fínni sem sandpappírinn er því mýkri og þéttari útkomu færðu!
Leyfðu leðrinu að þorna ef það er ekki orðið þurrt nú þegar og mundu, bara pínu vatn!
Fínt að nota gamlan tannbursta eða bara penslinn sem fylgir settinu. Nú er gott að bera leðurfitu á yfirleður og kantana. Gefur auka vörn og fallegan gljáa.
Ég bendi líka fólki á ef það vill fá enn fínni kant á sóla og hæl (og hefur ekki þolinmæðina til þess að pússa/raspa) að fara til skósmiðs og biðja hann að fara nokkrar umferðir yfir með sandpappírs-bandsvélinni og fá hann til að vaxa þá í leiðinni til þess að fá auka vörn og gljáa. Einnig er hægt að biðja hann um að sóla hæla og táberg. Það gerir þá mun endingarbetri og minna sleipa. Það er líka hægt að kaupa þetta hjá honum og gera sjálf/ur/t.
Gangi þér vel
GM